Áfram í Hafnarfirðinum

Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Pétur Viðarsson eigast við í leik …
Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Pétur Viðarsson eigast við í leik KA og FH síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnumaðurinn Pétur Viðarsson hefur skrifað undir eins árs samning við uppeldisfélag sitt FH.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Pétur er orðinn 32 ára gamall og hefur leikið með FH allan sinn feril, að undanskildu tímabilinu 2008 þar sem hann lék með Víkingi í Reykjavík.

Hann á að baki 188 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað sex mörk en hann er á meðal sigursælustu leikmanna í sögu Fimleikafélagsins.

Pétur tilkynnti eftir tímabilið 2019 að hann væri hættur knattspyrnuiðkun en ákvað að taka fram skóna fyrir síðasta keppnistímabil.

Hann lék fjórtán leiki með FH í deild og bikar, síðasta sumar en alls á hann að baki 251 leik fyrir FH.

Það eru spennandi tímar framundan hjá FH. Það er sterkt FH DNA í mér og með nýjum þjálfurum og nýju fólki skynja ég hungur,“ sagði Pétur meðal annars í tilefni undirskriftarinnar.

mbl.is