Framherjinn heldur áfram með Gróttu

Pétur Theódór Árnason í leik með Gróttu.
Pétur Theódór Árnason í leik með Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gróttumenn hafa samið við einn af lykilmönnum sínum í knattspyrnunni um að leika áfram með félaginu þó það hafi fallið úr úrvalsdeildinni á ný í haust eftir sitt fyrsta ár þar.

Framherjinn Pétur Theódór Árnason hefur skrifað undir tveggja ára samning. Hann var annar markahæsti leikmaður liðsins í deildinni í fyrra með þrjú mörk og markahæstur í 1. deildinni 2019 þegar hann skoraði 15 mörk þar auk 9 marka í bikarkeppninni. Samtals hefur Pétur leikið 114 deildaleiki og skorað í þeim 38 mörk.

Áður höfðu Gróttumenn samið við fyrirliðann Sigurvin Reynisson um að leika áfram með liðinu.

mbl.is