ÍSÍ vísaði máli Framara frá

Áfrýjunardómstóll ÍSÍ vísaði máli Framara frá í dag.
Áfrýjunardómstóll ÍSÍ vísaði máli Framara frá í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfrýjunardómstóll ÍSÍ, Íþrótta- og Ólympíusambandsins, hefur vísað frá máli knattspyrnufélagsins Fram.

„Máli þessu er vísað frá dómi,“ segir í dómsorði Áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem birtist í dag.

Framarar kærðu ákvörðun stjórnar KSÍ að láta markatölu skera úr um röð liða eftir að keppni var hætt á Íslandsmótinu 2020.

Keflavík og Leiknir í Reykjavík leika í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, á komandi leiktíð en Leiknir og Fram voru jöfn að stigum í 1. deild karla, Lengjudeildinni, þegar keppni var hætt á Íslandsmótinu vegna kórónuveirunnar.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vísaði máli Framara frá hinn 16. nóvember. Framarar áfrýjuðu því til áfrýjunardómstólsins, sem vísaði málinu aftur til Aga- og úrskurðarnefndar til efnislegrar meðferðar.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ tók þá málið fyrir þann 25. nóvember og hafnaði kröfu Fram. Það fór aftur fyrir áfrýjunardómstólinn sem kvað upp dóm 9. desember og vísaði þar málinu frá.

mbl.is