Eiður örlagavaldurinn í ákvörðun Atla

Atli Guðnason í leik með FH síðasta sumar.
Atli Guðnason í leik með FH síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Atli Guðnason ákvað að leggja skóna á hilluna á dögunum en Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, á stóran þátt í ákvörðun Atla um að hætta knattspyrnuiðkun.

Þetta staðfesti hann í Sportrásinni á Rás 2 á dögunum en hann á að baki 285 leiki í efstu deild með FH þar sem hann hefur skorað 68 mörk. Atli er leikjahæsti leikmaður í sögu FH í efstu deild.

Þá á hann að baki þrjá A-landsleiki en alls lék hann 408 meistaraflokksleiki á ferlinum og skoraði hann í þeim 109 mörk.

„Logi [Ólafsson] er alltaf léttur og hann kom inn með léttleikann á meðan Eiður [Smári Guðjohnsen] kom inn með þennan sterka karakter,“ sagði Atli um innkomu þeirra Eiðs og Loga sem tóku við FH-liðinu á miðju tímabili eftir að Ólafur Kristjánsson tók við Esbjerg í Danmörku.

„Eiður er með fáránlega visku og maður velti sér oft á því hvaðan ákveðnir hluti komu frá honum, eins og t.d. hvort þeir væru frá Mourinho eða Guardiola.

Ég var spenntur fyrir því að vera áfram með Eiði og ég hugsa að ég hefði haldið áfram ef Eiður hefði verið áfram. Þegar hann steig frá borði fannst mér þetta fínn tímapunktur að segja þetta gott,“ bætti Atli við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert