Breiðablik staðfestir félagaskipti Alexöndru

Alexandra Jóhannsdóttir skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í …
Alexandra Jóhannsdóttir skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í Þýskalandi. Ljósmynd/Eintracht Frankfurt

Alexandra Jóhannsdóttir er gengin til liðs við þýska knattspyrnufélagið Eintracht Frankfurt.

Þetta staðfesti Breiðablik, hennar fyrrverandi félag, á samfélagsmiðlum sínum í dag en Alexandra hefur leikið með Breiðabliki frá 2017.

Eintracht Frankfurt er í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar með 17 stig en liðið hefur sjö sinnum orðið Þýskalandsmeistari og níu sinnum bikarmeistari.

Þá hefur liðið fjórum sinnum orðið Evrópumeistari en það eru þrettán ár síðan liðið varð síðast Þýskalandsmeistari.

Alexandra, sem er einungis tvítug, hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki og einu sinni bikarmeistari.

Hún er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði en hún á að baki 67 leiki í efstu deild með Haukum og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 28 mörk. Þá á hún að baki 10 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

Við viljum þakka Alexöndru fyrir frábæran tíma hjá félaginu og óskum henni til hamingju með þennan stóra áfanga,“ segir í yfirlýsingu Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert