Landsliðsþjálfararnir funduðu með Lagerbäck

Lars Lagerbäck stýrði íslenska landsliðinu frá 2011 til ársins 2016.
Lars Lagerbäck stýrði íslenska landsliðinu frá 2011 til ársins 2016. mbl.is/Golli

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, fundaði með Lars Lagerbäck um helgina varðandi aðkomu Svíans í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins.

Þetta staðfesti Arnar Þór Viðarsson í samtali við 433.is í dag en Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari liðsins, sat einnig fundinn.

Þá munu landsliðsþjálfararnir funda á nýjan leik með Lagerbäck í vikunni en Lagerbäck þekkir vel til hjá íslenska liðinu eftir að hafa stýrt því frá 2011 til ársins 2016.

„Það er ekki kominn niðurstaða, við töluðum við hann um helgina og eigum annan fund með honum í vikunni,“ sagði Arnar í samtali við 433.is.

„Ég og Eiður tölum við hann í vikunni og við erum að reyna að finna lendingu. 

Það er mikill vilji hjá okkur til að fá Lars með okkur í þetta,“ bætti Arnar við í samtali við 433.is.

mbl.is