Arnar kominn aftur í uppeldisfélagið

Arnar Darri Pétursson í leik með Þrótti.
Arnar Darri Pétursson í leik með Þrótti. mbl.is/Golli

Knattspyrnumarkvörðurinn Arnar Darri Pétursson sem lék með Fylki á síðasta tímabili er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt, Stjörnuna eftir sjö ára fjarveru. 

Garðabæjarfélagið staðfesti þetta á Facebook-síðu sinni í dag. Arnar Darri er 29 ára gamall og fór kornungur í atvinnumennsku þar sem hann lék með Lyn í Noregi og SönderjyskE í Danmörku, ásamt því að spila 18 leiki með yngri landsliðum Íslands, þar af sjö með 21-árs landsliðinu, en hann var í hópnum sem komst í úrslitakeppni EM árið 2011.

Arnar kom heim í Stjörnuna árið 2012 og lék með liðinu í tvö ár en síðan með Víkingi í Ólafsvík í eitt ár og varði mark Þróttar í Reykjavík í fjögur ár. Á síðasta tímabili var hann í röðum Fylkis og lék þá einn leik með Árbæjarliðinu í úrvalsdeildinni.

Alls á Arnar að baki 102 deildaleiki hér á landi, þar af sextán í úrvalsdeildinni.

Haraldur Björnsson hefur varið mark Stjörnunnar undanfarin ár og Arnar Darri verður því í baráttu við hann um sæti í liðinu en Vignir Jóhannesson sem var varamarkvörður Stjörnunnar á síðasta ári hefur lagt hanskana á hilluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert