Davíð keyptur til Breiðabliks

Davíð Örn Atlason í búningi Breiðabliks.
Davíð Örn Atlason í búningi Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Breiðablik hefur gengið frá kaupum á bakverðinum Davíð Erni Atlasyni frá Víkingum í Reykjavík en hann hefur verið í stóru hlutverki hjá Víkingsliðinu á undanförnum árum.

Þetta er staðfest á heimasíðu stuðningsmanna Breiðabliks í dag en hann hefur samið við Kópavogsfélagið til þriggja ára.

Davíð, sem er 26 ára gamall, hefur verið fastamaður í Víkingsliðinu undanfarin sex ár og leikið með því 107 leiki í úrvalsdeildinni á þeim tíma, þar sem hann hefur skorað sex mörk. Áður lék hann sem lánsmaður bæði með KA og Dalvík/Reyni. Davíð var í liði Víkings sem varð bikarmeistari árið 2019.

mbl.is