Graham Norton fjallar um fagn Stjörnunnar

Stjarnan fagnar marki gegn KR sumarið 2020.
Stjarnan fagnar marki gegn KR sumarið 2020. mbl.is/Íris

Hugvitssemi í fögnum karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu vakti verðskuldaða athygli sumarið 2010. Nú rúmlega 10 árum síðar vekja fögnin enn athygli og það utan landsteinanna, en írski spjallþáttastjórnandinn Graham Norton fjallaði um fagnaðarlæti liðsins í þætti sínum á dögunum.

Knattspyrnugoðsögnin Ian Wright var meðal gesta Graham, en Graham spilaði myndskeið af nokkrum fögnum Stjörnunnar í kjölfar þess að þeir félagarnir höfðu rætt fagn Wright þegar hann sló markamet Arsenal árið 1997. Þá var hann í bol innan undir treyjunni með markafjöldanum.

Wright viðurkenndi vandræðalega að hann hefði verið í bolnum innan undir í nokkrum leikjum í röð án þess að takast að skora og slá metið. Honum tókst lokst að skora mark í leik gegn Bolton Wanderers 13. september og fékk þá loks að sýna bolinn. Liðsfélagi hans spurði hann svo hvort ekki væri rétt athugað að hann hefði verið að jafna áratugagamalt met Cliffs Baskin, en ekki slá það.

Wright fannst atvikið mjög neyðarlegt en hann náði sem betur fór að skora tvö mörk til í sama leik og slá metið.

Í kjölfar umræðunnar um fagnið sýndi Graham svo frá þremur einstaklega skapandi fögnum Stjörnunnar frá sumrinu 2010: trekkinguna, laxinn og klósettið. 

Hægt er að sjá þáttinn í spilaranum hér að neðan, en sýnt er frá Stjörnunni í kringum mínútu 25. Aðrir gestir þáttarins voru Neil Patrick Harris, Carey Mulligan og Camille Cottin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert