Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vonast til þess að leika sinn fyrsta leik fyrir þýska stórveldið Bayern München í marsmánuði.
Miðjukonan, sem er einungis 19 ára gömul, skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning í Þýskalandi en hún er að jafna sig á hnémeiðslum og vonast til þess að hefja æfingar með þýska liðinu í næstu viku.
Karólína varð Íslandsmeistari með Breiðabliki síðasta haust en hún gekk til liðs við Blika frá uppeldisfélagi sínu FH eftir tímabilið 2017 og á að baki 78 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað ellefu mörk.
Þrátt fyrir ungan aldur og að vera að stíga upp úr meiðslum ætlar Karólína sér stóra hluti með þýska stórliðinu á komandi leiktíð en Bayern hefur þrívegis orðið Þýskalandsmeistari; 1976, 2015 og 2016.
„Öll umgjörðin hérna í kringum félagið er svakalega flott og fagmennskan er gríðarlega mikil,“ sagði Karólína í samtali við Morgunblaðið.
„Ég er í endurhæfingu þessa stundina eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné í desember en samt sem áður er ég að æfa tíu sinnum í viku. Það er því æft af fullum krafti, þótt ég sé í endurhæfingu, en áherslan er mestmegnis á þolæfingar þótt boltanum sé aðeins blandað með líka.
Stelpurnar hérna eru mjög indælar og mér hefur verið tekið gríðarlega vel af bæði leikmönnum og öllum sem starfa í kringum félagið. Móttökurnar sem ég hef fengið hafa í raun komið mér aðeins á óvart og ég gæti ekki verið spenntari fyrir komandi tímum með liðinu,“ bætti Karólína við.
Karólína skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik í lok nóvember og var planið að spila á Íslandi á komandi keppnistímabili.
„Það var einhver áhugi frá liðum í Skandinavíu en planið var alltaf bara að taka alla vega eitt ár í viðbót heima á Íslandi. Svo kom Bayern München allt í einu inn í þetta og ég heyrði fyrst af áhuga þeirra þegar umboðsmaðurinn minn hringdi í mig í miðjum lokaprófum í Háskóla Íslands. Í framhaldinu af því fór ég á fund með forráðamönnum félagsins og eftir það var þetta í raun aldrei spurning.
Viðtalið við Karólínu í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.