Nú eða aldrei hjá landsliðsþjálfaranum

Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari, Þorsteinn Halldórsson þjálfari og Guðni Bergsson formaður …
Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari, Þorsteinn Halldórsson þjálfari og Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Kris

Þorsteinn Halldórsson, nýráðinn landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, segir forráðamenn Breiðabliks hafa verið „góða við sig“ þegar honum bauðst að taka við landsliðinu nú þegar undirbúningstímabilið fyrir Íslandsmótið er hafið. 

„Já í sjálfu sér gekk viðskilnaðurinn við Breiðablik mjög vel. Þeir voru raunverulega ótrúlega góðir við mig. Ég leit á þetta starfstilboð sem tækifæri fyrir mig og kannski væri nú eða aldrei að verða landsliðsþjálfari. Ég hugsaði því kannski svolítið um sjálfan mig í þessu tilfelli og tók svo bara ákvörðun út frá því að ég vildi stökkva á þetta. Blikarnir tóku vel í þetta og viðskilnaður minn við félagið er því mjög góður. Mér fannst frábært að vera hjá Breiðabliki og kynntist þar góðu fólki,“ sagði Þorsteinn þegar mbl.is ræddi við hann á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag. 

Eins og Þorsteinn nefnir þá geta þjálfarar ekki gefið sér að þeim sé oftar en einu sinni á starfsferlinum boðið landsliðsþjálfarastarf, jafnvel þótt sigursælir séu. Þegar honum bauðst starfið þá hafi hann bara hugsað eins og Elvis forðum: It´s now or never.

„Það hefði getað komið landsliðsþjálfari sem hefði verið í tíu ár og þá yrði ég kominn á sjötugsaldurinn þegar sá myndi hætta. Þá hefði maður þess vegna geta verið löngu hættur að þjálfa. Ég hugsaði þetta því á þeim nótum að annað hvort myndi ég taka við þessu starfi núna eða aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert