„Skylda okkar að hafa skoðanir á landsliðinu“

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Sigfús

Þorsteinn Halldórsson, nýráðinn landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, segist eins og aðrir hafa haft skoðanir á landsliðinu á hverjum tíma. 

„Aðdragandinn að þessu var í sjálfu sér frekar stuttur. Ég fór í viðtal í byrjun árs og síðan gerðist þetta hratt síðar í mánuðinum,“ sagði Þorsteinn sem ekki þurfti að kynna sér landsliðið sérstaklega eftir að hafa þjálfað í efstu deild kvenna í langan tíma. 

„Auðvitað hefur maður alltaf skoðanir á landsliði og það er skylda okkar að hafa skoðanir á þeim. Ég hef auðvitað fylgst vel með og hef þjálfað marga leikmenn sem hafa spilað með landsliðinu. Maður hefur alltaf einhverjar hugmyndir um landsliðið og ég hef fylgst vel með því undanfarin ár.“

Kvennalandsliðið hefur þrívegis keppt í lokakeppni EM og er á leið í lokakeppnina í fjórða skipti sumarið 2021. Telur Þorsteinn að hann sé að koma inn í gott starfsumhverfi? 

„Já algerlega. Ég held að vel sé að þessu staðið og það er haldið vel utan um liðið. Okkar markmið er að komast á HM og það verður fyrsta stóra verkefni að taka þátt í þeirri undankeppni. Við þurfum að nýta tímann vel og þá leiki sem við fáum fram að því.“

Í allri umræðunni um að landsliðinu hafi tekist að komast í lokakeppni EM vill gleymast að áður en að þeirri keppni kemur hefst undankeppni HM. 

„Þetta snýst aðallega um að liðið verði í standi þegar undankeppni HM hefst í haust. Ef við gerum vel í undankeppnininni þá getum við flutt það með okkur lengra. Mér finnst að við þurfum að einbeita okkur að þeirri keppni fyrst. Við viljum komast á HM en erfitt er að meta möguleikana á þessum tímapunkti en ekki verður dregið í riðlana fyrr en í lok apríl. Fyrsta markmiðið er að vera í baráttunni þar og ef vel gengur þar munum við geta horft jákvætt inn í lokakeppni EM. Ef við verðum í veseni í undankeppni HM þá gæti það fylgt okkur inn í EM og við þurfum að halda okkur í núinu,“ útskýrði Þorsteinn og hann segist taka við spennandi liði þegar horft er til þeirra leikmanna sem eru í boði. 

„Ungir leikmenn eru að koma upp og eldri leikmenn styðja vel við þær. Hópurinn er þokkalega vel samansettur úr þeim leikmönnum sem maður hefur úr að velja og ég fer inn í þetta bjartsýnn á að við getum haldið áfram að þróa liðið eins og gert var í síðustu undankeppni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert