Þorsteinn velur samstarfsfólkið

Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari, Þorsteinn Halldórsson þjálfari og Guðni Bergsson formaður …
Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari, Þorsteinn Halldórsson þjálfari og Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Kris

Þorsteinn Halldórsson, nýráðinn landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, fær sjálfur að setja saman teymi í kringum liðið en tilkynnt var um ráðningu Þorsteins í dag. 

Fyrir liggur að Ásmundur Haraldsson verður honum til aðstoðar en Ásmundur var einnig aðstoðarþjálfari landsliðsins 2013 - 2018. 

„Ég valdi þetta raunverulega sjálfur. Ég taldi mikilvægt að fá Ása inn með sína reynslu og þekkingu. Ég leit svo á að hann myndi vega mig upp í ýmsu. Hann hefur til að mynda þekkingu á því hvernig er að spila í lokakeppni. Hann getur því komið með punkta um hvað gekk vel og hvað þyrfti að laga. Þá gætum við farið ennþá betur undirbúin á EM 2022 en síðast [EM 2017]. Er það hugmyndin á bak við ráðninguna en Ási er auk þess fær þjálfari og skemmtilegur drengur.“

Skylda 

Þorsteinn er íþróttafræðingur að mennt og hefur þjálfað félagslið í talsverðan tíma. Störf landsliðsþjálfara og þjálfara félagsliða eru í eðli sínu ólík. Landsliðsþjálfarar fá leikmenn sjaldan í hendurnar og gjarnan í skamman tíma hverju sinni. Hefur Þorsteinn velt því eitthvað fyrir sér hversu ólík þessi störf eru?

„Ég hef auðvitað verið í samskiptum við landsliðsþjálfara í gegnum tíðina. Að einhverju leyti eru þessi störf ólík. Undirbúningurinn fyrir leiki er öðruvísi. Maður þarf að kynna andstæðingana fyrir leikmönnum sem þekkja andstæðingana kannski minna en gerist hjá félagsliðum. Þetta getur kallað á mikið magn upplýsinga á skömmum tíma. Maður er ekki með venjulegar æfingar hjá landsliði eru þetta aðallega taktískar æfingar til að undirbúa liðið svo það geti spilað sinn leik. Ég verð væntanlega með fáar æfingar sem kalla má venjulegar fótboltaæfingar. Meira verður um taktík svo hægt sé að spila sem best gegn andstæðingnum hverju sinni,“ sagði Þorsteinn í samtal við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert