Tveir leikmenn á leið í Víkina

Kwame Quee í leik með Víkingum síðasta sumar.
Kwame Quee í leik með Víkingum síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnumennirnir Karl Friðleifur Gunnarsson og Kwame Quee eru að ganga til liðs við Víking í Reykjavík.

Þetta staðfesti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, í samtali við mbl.is í dag, en þeir koma báðir til félagsins frá Breiðabliki.

Karl Friðleifur mun skrifa undir lánssamning við Víkinga sem gildir út tímabilið en Kwame mun skrifa undir samning til næstu ára í Víkinni.

Karl Friðleifur, sem er 19 ára gamall, á að baki 19 leiki í efstu deild með Breiðabliki og Gróttu þar sem hann hefur skorað sex mörk.

Kwame, sem er 24 ára gamall, á að baki 44 leiki í efstu deild með Breiðbliki og Víkingi í Reykjavík en hann hefur einnig leikið með Víkingi úr Ólafsvík hér á landi.

„Við erum að vonast til þess að fá inn framherja líka, svokallaða níu til að styrkja hópinn, og auka samkeppnina,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is þegar hann var spurður hvort hann ætti von á því að styrkja hópinn frekar fyrir keppnistímabilið.

„Markaðurinn er erfiður og ef það gengur ekki eftir þá er ég sáttur með hópinn sem ég er með núna,“ bætti Arnar við en félagið hefur einnig fengið þá Pablo Punyed frá KR og Axel Frey Harðarson frá Gróttu frá því síðasta tímabili lauk.

mbl.is