Kjartan Henry líklega á leið í KR

Kjartan Henry Finnbogason í leik með KR gegn Val á …
Kjartan Henry Finnbogason í leik með KR gegn Val á Hlíðarenda í júlí 2014. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR-ingar eru vongóðir um að Kjartan Henry Finnbogason muni leika með KR ef hann flytur heim til Íslands í sumar eins og útlit er fyrir. 

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að KR hafi átt viðræður við Kjartan og í herbúðum félagsins sé búist við því að hann muni leika með KR í sumar. 

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, sagðist þó ekki geta tjáð sig um málið þegar mbl.is hafði samband við hann vegna þessa. Lét einungis hafa eftir sér að Kjartan Henry sé sannarlega velkominn í KR þegar hann kýs að snúa heim. 

Vilji hefur verið fyrir því innan KR að semja við uppalda KR-inga sem snúa heim úr atvinnumennsku og hefur það gerst nokkrum sinnum á síðustu árum. Má þar nefna nýleg dæmi eins og Brynjar Björn Gunnarsson og Indriða Sigurðsson sem nú situr í stjórn knattspyrnudeildarinnar. Þá voru KR-ingar í viðræðum við Theodór Elmar Bjarnason fyrir tveimur árum síðan en hann kaus að leika áfram erlendis. 

Kjartan Henry gerði á dögunum samning við danska B-deildarliðið Esbjerg eins og fram hefur komið. Komi hann til með að leika með Esbjerg út tímabilið í Danmörku og snúa síðan heim til Íslands þá myndi hann koma til landsins í júní. Yrði það niðurstaðan yrði hann löglegur með íslensku liði frá 1. júlí. 

Kjartan Henry er 34 ára og lék síðast með KR sumarið 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert