Annar stórsigur Blika – Stjarnan vann tíu Skagamenn

Brynjólfur Willumsson var á skotskónum í kvöld.
Brynjólfur Willumsson var á skotskónum í kvöld. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Breiðablik vann sannfærandi 5:0-sigur á Þrótti frá Reykjavík á Eimskipsvellinum í Laugardal í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld. Breiðablik hefur leikið tvo leiki í keppninni til þessa og unnið 4:0 og 5:0. 

Thomas Mikkelsen og Gísli Eyjólfsson sáu til þess að staðan í hálfleik væri 2:0 fyrir Breiðabliki. Brynjólfur Willumsson bætti við þriðja markinu snemma í seinni hálfleik og þeir Róbert Orri Þorkelsson og Damir Muminovic bættu við fjórða og fimmta markinu og þar við sat. 

Breiðablik er með sex stig eftir tvo leiki og í toppsæti 4. riðils en Þróttur er með þrjú stig. 

Í Garðabænum vann Stjarnan 2:0-sigur á ÍA. Tristan Freyr Ingólfsson kom Stjörnunni yfir á 10. mínútu og Hilmar Árni Halldórsson bætti við marki á 27. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki, þrátt fyrir að Skagamaðurinn Ingi Sigurðsson hafi fengið beint rautt spjald á 41. mínútu.  

Stjarnan er með fullt hús stiga og í toppsæti 3. riðils eftir tvo leiki en ÍA er með þrjú stig. 

mbl.is