Ísak áfram hjá ÍA

Ísak Snær Þorvaldsson með Jóhannesi Karli Guðjónssyni þjálfara ÍA.
Ísak Snær Þorvaldsson með Jóhannesi Karli Guðjónssyni þjálfara ÍA. Ljósmynd/ÍA

Knattspyrnumaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson hefur gert nýjan lánssamning við ÍA og mun leika með liðinu fyrri hluta komandi tímabils. Hinn 19 ára gamli Ísak er á mála hjá Norwich City í ensku B-deildinni og er samningsbundinn þar til sumarsins 2022.

Frá þessu er greint á Fótbolta.net. Ísak lék síðari hluta síðasta tímabils með ÍA og spilaði þá sjö leiki með liðinu í Pepsi Max-deildinni eftir að hafa staldrað stutt við, rúman mánuð, á láni hjá St. Mirren í skosku úrvalsdeildinni.

Ísak sagðist sjálfur í samtali við Fótbolta.net á dögunum áætla að spila fyrri hluta tímabilsins, þar til í júní, með ÍA og freista þess svo að fara á lán í ensku neðri deildunum. Í upphafi ársins 2020 lék hann með enska C-deildarliðinu Fleetwood Town á láni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert