KSÍ byrjað að úthluta verðlaunum - fjölmiðlaverðlaun til Skotlands

Guðni Bergsson er formaður KSÍ og verður endurkjörinn til tveggja …
Guðni Bergsson er formaður KSÍ og verður endurkjörinn til tveggja ára á laugardaginn. mbl.is/Hari

Knattspyrnusamband Íslands byrjaði í dag að úthluta verðlaunum sem að öllu jöfnu eru afhent á ársþingi sambandsins.

Ársþingið í ár sem haldið er næsta laugardag, 27. febrúar, verður með óhefðbundnu sniði, rafrænt, og því er staðið öðruvísi að afhendingum viðurkenninga.

KSÍ tilkynnti í dag að fjölmiðlaviðurkenning sambandsins fyrir árið 2020 færi að þessu sinni til Skotlands. Hana hlýtur Marc Boal sem gaf út bók á ensku um íslenskan fótbolta, Sixty four degrees north.

Hlaðvarpsþátturinn Heimavöllurinn hlaut jafnréttisverðlaun KSÍ fyrir brautryðjendastarf á sviði umfjöllunar um knattspyrnu kvenna. Stofnendur hans og umsjónaraðilar eru eru Hulda Mýrdal og Mist Rúnarsdóttir.

Grasrótarverðlaun KSÍ fara til tveggja aðila fyrir árið 2020. Annars vegar er það fótboltafélagið Múrbrjótar á Akureyri sem býður einstaklingum sem takast á við geðræn og félagsleg vandamál upp á fótboltaæfingar. Hinsvegar eru það félögin Kormákur frá Hvammstanga og Hvöt frá Blönduósi sem halda úti öflugu og farsælu samstarfi í yngri flokkum drengja og stúlkna og meistaraflokki karla og láta fjarlægð á milli bæjarfélaganna ekki hindra sig í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert