Endurkoma hjá Fram gegn FH - Fylkir vann Þrótt í markaleik

Morten Beck Guldsmed framherji FH sækir að vörn Fram í …
Morten Beck Guldsmed framherji FH sækir að vörn Fram í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkir hafði betur gegn Þrótti Reykjavík, 4:3, í miklum markaleik á Würth-vellinum í 4. riðli í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld. Hákon Ingi Jónsson kom Fylki yfir á 27. mínútu en Þróttur jafnaði með sjálfsmarki rétt fyrir leikhlé. 

Nikulás Val Gunnarsson skoraði tvö mörk snemma í seinni hálfleik og kom Fylki 3:1 áður en Baldur Hannes Stefánsson minnkaði muninn í 3:2 með marki úr víti á 67. mínútu.

Munnurinn varð hins vegar aftur tvö mörk á 78. mínútu þegar Þróttarar skoruðu sjálfsmark. Baldur Hannes Stefánsson minnkaði muninn fyrir Þrótt undir lokin með sínu öðru marki en nær komust Þróttarar ekki. Fylkir er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en Þróttur er með þrjú stig. 

Fram, sem leikur í 1. deild, neitaði að gefast upp á móti FH á Framvelli í Safamýri en FH komst í 2:0 með mörkum á 68. og 72. mínútu frá Baldri Loga Guðlaugssyni og Pétri Viðarssyni. Alex Freyr Elísson og Þórir Guðjónsson jöfnuðu hins vegar með mörkum á sex mínútum skömmu fyrir leikslok og þar við sat. Bæði lið eru með fjögur stig eftir þrjá leiki. 

Í hinum leik 2. riðils vann Víkingur Reykjavík 3:1-sigur á Kórdrengjum á Víkingsvelli. Halldór Jón Sigurður Þórðarson kom Víkingi yfir strax á 9. mínútu en Unnar Már Unnarsson jafnaði á 13. mínútu. Sex mínútum síðar kom Helgi Guðjónsson Víkingi í 2:1 og Nikolaj Hansen tryggði Víkingum 3:1-sigur með marki sex mínútum fyrir leikslok. Víkingur er í toppsætinu með tíu stig og Kórdrengir í fimmta sæti með þrjú stig. 

Í 1. riðli gerði Grindavík góða ferð í Mosfellsbæinn og vann 2:0-sigur á Aftureldingu. Aron Jóhannsson kom Grindavík yfir á 30. mínútu og Símon Logi Thasaphong bætti við öðru marki á 50. mínútu og þar við sat. 

Grindavík er í þriðja sæti með sex stig, eins og HK og Valur sem bæði eiga leik til góða. Afturelding er í fimmta sæti með þrjú stig. 

Upplýsingar um markaskorara úr leikjum Fram og FH og Fylkis og Þróttar fengust á Fótbolta.net. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert