Segði aldrei nei við landsliðið

Kári Árnason, leikmaður Víkings og landsliðsmaður í knattspyrnu.
Kári Árnason, leikmaður Víkings og landsliðsmaður í knattspyrnu. Arnþór Birkisson

„Ég er svo sem ekki að gera mér neinar vonir þegar nýr landsliðsjálfari tilkynnir sinn fyrsta hóp í næsta mánuði og er á þægilegum stað gagnvart liðinu og mínum tilfinningum. Ef landsliðsferli mínum er lokið þá er honum bara lokið og ég mun alls ekki móðgast þótt ég verði ekki valinn. Á móti kemur að lítið hefur breyst hjá mér á þessum þremur mánuðum. Ég er í svipuðu standi núna og í nóvember þegar ástæða þótti til að velja mig. Þetta lið hefur gefið mér margt og ég vonandi gefið því eitthvað líka. Ég hef eignast marga vini fyrir lífstíð á þessari löngu vegferð og myndi aldrei segja nei við landsliðið.“

Þetta segir landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en í vonbrigðunum strax eftir grátlegt tap gegn Ungverjum í umspili um laust sæti á EM í nóvember síðastliðnum komst Kári svo að orði í samtali við fréttamenn að honum þætti ólíklegt að hann ætti eftir að leika fleiri landsleiki fyrir Íslands hönd. Þeir eru orðnir 86. Hann væri að sönnu orðinn 38 ára og léki með félagsliði á Íslandi, þannig að líkurnar væru ekki endilega með honum. 

Kári í landsleik gegn Rúmeníu síðasta haust.
Kári í landsleik gegn Rúmeníu síðasta haust. Eggert Jóhannesson


 Ekki í fótbolta til að gefa „fimmur“

Yrði hann valinn myndi Kári heldur ekki gera kröfu um sæti í byrjunarliðinu. „Það á enginn neitt í landsliðinu og þegar Erik Hamrén tók við á sínum tíma var ég í raun kominn í þá stöðu að vera hópleikmaður. Erik sagði mér beint út að ég yrði ekki í byrjunarliðinu í fyrsta leik en hann vildi eigi að síður hafa mig með í hópnum. Síðan þróaðist það bara þannig að ég byrjaði flesta leiki undir hans stjórn.

Ég hef aldrei verið í fótbolta til að vera bara á svæðinu og gefa „fimmur“ en séu aðrir valdir á undan mér í liðið stendur ekki á mér að styðja við bakið á þeim. Það breytir þó ekki því að ég myndi áfram reyna að standa mig og stefna á að spila. Það fer enginn í fótbolta til að sitja á bekknum.“

– Hefurðu gert nýja þjálfarateyminu grein fyrir þessari afstöðu?

„Nei. Ég hef rekist á þá eftir að þeir voru ráðnir en ekki rætt þetta mál.“

Kári glímir við FH-inginn Daníel Hafsteinsson.
Kári glímir við FH-inginn Daníel Hafsteinsson. Arnþór Birkisson


Hefur augastað á starfi yfirmanns knattspyrnumála

Í viðtalinu kemur fram að Kári er að klára grunngráðu í þjálfun meðfram MBA-námi við háskóla í Skotlandi en hefur hins vegar ekki gert upp við sig hvort hugur hans stendur til þess að þjálfa.

„Eins og staðan er núna þá hef ég meiri áhuga á yfirsýn og stefnumótun á breiðari grundvelli og það má alveg koma fram hér að ég hef augastað á starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ. Ég hef séð og lært margt á löngum ferli í atvinnumennsku og verið partur af bæði versta og langbesta landsliði Íslandssögunnar og hef því þann samanburð.

Ég brenn fyrir knattspyrnunni í landinu og tel mig hafa margt fram að færa; ekki bara fyrir einstaka klúbba heldur þegar kemur að mótun heildarstefnu til framtíðar. Það á auðvitað við um fleiri félaga mína úr landsliðinu, þó ég geri mér ekki grein fyrir því hversu margir hafi áhuga á að fara út í þjálfun eða að leggja sitt af mörkum við stefnumótun og framtíðarsýn.

Í öllu falli væri synd ef þessi kynslóð, sem býr ekki bara að mikilli reynslu, heldur ekki síður mikilli fótboltagreind, myndi ekki nýtast hér heima eftir að hún leggur skóna á hilluna. Það væri að kasta ómetanlegri þekkingu út um gluggann. Okkur þykir öllum óendanlega vænt um landsliðið og viljum íslenskri knattspyrnu bara það besta.“

– Er húsbændum í Laugardalnum kunnugt um þessa afstöðu þína og vilja?

„Já, ég hef rætt þetta við þá og þeim er kunnugt um hugmyndir mínar og áhuga á starfinu.“

Ítarlega er rætt við Kára Árnason í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »