Stjarnan enn með fullt hús stiga

Úr leik Stjörnunnar og Gróttu á síðustu leiktíð.
Úr leik Stjörnunnar og Gróttu á síðustu leiktíð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan hefur unnið alla þrjá leiki sína í Lengjubikar karla í knattspyrnu en í dag unnu Garðbæingar 3:2-sigur gegn Gróttu á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi.

Hilmar Árni Halldórsson kom gestunum í forystu snemma leiks en tvö mörk frá Pétri Theódóri Árnasyni sneru taflinu við, heimamönnum í vil. Pétur skoraði á 25. og 67. mínútu en Stjarnan var þó ekki lengi að jafna, Tristan Freyr Ingólfsson skoraði á 70. mínútu.

Pétur Theódór varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 81. mínútu og réð það mark úrslitum leiksins, lokatölur 3:2 Stjörnunni í vil. Stjarnan er með níu stig á toppi riðils 3 en Grótta er með fjögur stig, eins og Keflavík sem á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert