Fjölnir skoraði þrjú mörk á sjö mínútum

Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eitt mark fyrir Fjölni í dag.
Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eitt mark fyrir Fjölni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnir vann 4:3-sigur á Leikni úr Reykjavík í markaleik í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Fjölnismenn skoruðu þrjú mörk seint í leiknum í Egilshöllinni.

Sævar Atli Magnússon kom Leikni í forystu á 26. mínútu áður en Andri Freyr Jónasson jafnaði metin og var staðan 1:1 í hálfleik. Sævar Atli bætti svo við marki og Henrik Berger kom Leiknismönnum í 3:1 á 76. mínútu. Þremur mínútum síðar fékk Daði Bærings Halldórsson rautt spjald og virtist botninn þá falla úr spilamennsku Leiknis.

Andri Freyr, Guðmundur Karl Guðmundsson og Hilmir Rafn Mikaelsson skoruðu allir fyrir Fjölni á sjö mínútna kafla til að innsigla skrautlegan sigur. Bæði lið eru með þrjú stig eftir þrjá leiki í riðli 4 í keppninni. Breiðablik og Fylkir eru í efstu tveimur sætunum með fullt hús stiga, næst koma Leiknir og Fjölnir en Þróttur er í 5. sæti, með þrjú stig, og ÍBV á botninum án stiga.

Þá vann Keflavík 2:0-sigur á Selfossi í Reykjaneshöllinni í kvöld en Ari Steinn Guðmundsson og Helgi Þór Jónsson skoruðu mörk heimamanna í síðari hálfleik. Keflavík er í öðru sæti riðils 3 með sjö stig eftir þrjá leiki en Selfoss er í 5. sæti, án stiga eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert