Kinnbeinsbrotnaði við að skora

Halldór Jón Sigurður Þórðarson (28) í leik með Víkingi gegn …
Halldór Jón Sigurður Þórðarson (28) í leik með Víkingi gegn FH um síðustu helgi. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Halldór Jón Sigurður Þórðarson kantmaður Víkings Reykjavíkur skoraði fyrsta mark liðsins í 3:1 sigri gegn Kórdrengjum í riðli 2 í A-deild Lengjubikarsins á föstudagskvöld. Halldór lenti í samstuði við Andra Þór Grétarsson, markvörð Kórdrengja, þegar hann skoraði markið og kinnbeinsbrotnaði.

Fótbolti.net greinir frá. Þar segir að auk þess að kinnbeinsbrotna sé Halldór með sprungu í höfuðkúpu upp að öðru auganu.

Í gær fór hann í aðgerð sem heppnaðist vel. Reiknað er með því að Halldór verði frá í fjórar til sex vikur.

Mark Halldórs kom strax á 9. mínútu leiksins og fór hann af velli í kjölfarið, auk þess sem Andri fékk gult spjald.

mbl.is