Félögin í landinu of hrædd við breytingar?

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk knattspyrnufélög þurfa að setjast aftur við teikniborðið eftir að tvær tillögur sem sneru að lengingu keppnistímabilsins í efstu deild karla voru felldar á 75. ársþingi Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, sem haldið var rafrænt um síðustu helgi.

Upphaflega bárust ársþinginu fjórar tillögur en Fylkismenn, sem vildu fækka liðum í efstu deild í tíu og spila þrjár umferðir, drógu tillögu sína til baka. Sömu sögu er að segja af Skagamönnum sem lögðu fram tillögu um tólf liða efstu deild og að spiluð yrði þreföld umferð.

Því var kosið um annars vegar tillögu frá stjórn KSÍ um áframhaldandi tólf liða deild en eftir hinar hefðbundu 22 umferðir myndu efstu sex liðin spila innbyrðis um Íslandsmeistaratitilinn í fimm umferðum, og taka stigin með sér þangað, og neðstu sex liðin á sama hátt um að halda sér í deildinni. Þá lögðu Framarar fram tillögu um fjórtán liða efstu deild þar sem leikin yrði tvöföld umferð.

„Miðað við hvernig niðurstaðan var um helgina þá fengu auðvitað báðar tillögurnar meirihluta atkvæða en ekki aukinn meirihluta eins og þarf til svo þær verði samþykktar,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við Morgunblaðið.

Almennur vilji til að fjölga

„Miðað við núverandi regluverk þá þarf að vinna þetta áfram og reyna að komast að niðurstöðu í málinu. Það er almennur vilji til þess að fjölga leikjum og færa fyrirkomulagið til betri vegar. Það er okkar verkefni innan hreyfingarinnar núna og að finna góða niðurstöðu í þessu máli. Við þurfum að fara aðeins betur yfir þetta og ræða á hlutlægan og faglegan hátt. Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé æskilegt fyrirkomulag að þurfa samþykki frá 2/3 greiddra atkvæða en þetta er regluverkið okkar í dag og við þurfum 2/3 samþykki til þess að breyta því.

Það er ljóst að þetta er mál sem þarf meiri umræðu og það fór mikil orka í að reyna að klára mótið í fyrra og annað tengt kórónuveirufaraldrinum. Við fórum seint í þessa rýnivinnu og kannski þarf þetta meiri tíma en við gáfum okkur því það er vissulega stór framkvæmd að breyta deildarfyrirkomulaginu. Það er talað um að þegar við fórum úr tíu liðum í tólf þá hafi það tekið tíu ár að koma þeirri breytingu í gegn enda hafði hún verið lengi í umræðunni áður en af henni varð. Þessi mál vilja taka langan tíma og kannski of langan.

Kannski erum við of hrædd við breytingar en það er svo sannarlega vilji til breytinga núna og ég finn það innan hreyfingarinnar,“ bætti Guðni við.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag en auk Guðna er þar rætt við Ásgrím Helga Einarsson formann knattspyrnudeildar Fram og Orra Hlöðversson formann Íslensks toppfótbolta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert