Á leið til Noregs fyrir metfé

Brynjólfur Willumsson í leik með U21-árs landsliðinu í nóvember á …
Brynjólfur Willumsson í leik með U21-árs landsliðinu í nóvember á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Brynjólfur Andersen Willumsson er að ganga til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Kristiansund samkvæmt heimildum mbl.is.

Frá þessu var einnig greint í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag sem og í norska fjölmiðlinum Nettavisen.

Samkvæmt heimildum mbl.is er kaupverðið í kringum 150.000 evrur en það samsvarar tæplega 23 milljónum íslenskra króna.

Brynjólfur verður dýrasti leikmaður í sögu norska úrvalsdeildarfélagsins en hann er einungis tvítugur.

Hann er uppalinn hjá Breiðabliki og á að baki 41 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað sjö mörk.

Þá á hann að baki 22 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

Kristiansund hafnaði í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og mætir Lillestrøm á heimavelli í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar 5. apríl.

mbl.is