Þrenna í Víkinni

Víkingurinn Kristall Máni Ingason skoraði þrennu í slag Reykjavíkurliðanna.
Víkingurinn Kristall Máni Ingason skoraði þrennu í slag Reykjavíkurliðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Kristall Máni Ingason skoraði þrennu fyrir Víking í Reykjavík þegar liðið vann öruggan 5:1-sigur gegn Fram í 2. riðli deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins, á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld.

Helgi Guðjónsson og Logi Tómasson voru einnig á skotskónum í liði Víkinga en Alexander Már Þorláksson minnkaði muninn fyrir Framara í 3:1 á 61. mínútu.

Víkingar eru í efsta sæti riðilsins með 10 stig og komnir langleiðina í átta liða úrslit keppninnar en Framarar eru með fjögur stig í fjórða sætinu.

Þá skoraði Emil Atlason tvívegis fyrir Stjörnuna í 2:0-sigri gegn Keflavík á Samsung-vellinum í Garðabæ í 3. riðli.

Í sama riðli vann ÍA 4:1-sigur gegn Vestra í Akraneshöllinni þar sem þeir Viktor Jónsson, Gísli Laxdal Unnarsson, Aron Kristófer Lárusson og Guðmundur Tyrfingsson skoruðu mörk Skagamanna.

Stjarnan er með 12 stig í efsta sæti riðilsins eftir fjóra leiki, Keflavík er með 7 stig eftir fjóra leiki og Skagamenn eru með 6 stig í þriðja sætinu eftir þrjá leiki.

Í 4. riðli vann Breiðablik 3:1-sigur gegn Fjölni en Breiðablik og Fylkir eru með 9 stig í fyrsta og öðru sæti riðilsins eftir þrjá leiki.

Markaskorarar fengnir af úrslit.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert