Níu marka leikur á Sauðárkróki

FH vann Tindastól í miklum markaleik.
FH vann Tindastól í miklum markaleik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

FH hafði betur gegn Tindastóli, 5:4, í 2. riðli í Lengjubikar kvenna í fótbolta í dag. Tindastóll tryggði sér sæti í efstu deild síðasta sumar á meðan FH féll úr deild þeirra bestu.

FH var með 3:2-forskot eftir skemmtilegan fyrri hálfleik. Elín Björg Símonardóttir og Esther Rós Arnarsdóttir komu FH í 2:0 á fyrstu 13. mínútunum áður en Bryndís Rut Haraldsdóttir minnkaði muninn fyrir Tindastól á 22. mínútu.

Þremur mínútum síðar kom Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir FH-ingum aftur í tveggja marka forystu, en Murielle Tiernan minnkaði muninn á 32. mínútu.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoraði fjórða mark FH á 53. mínútu, áður en Elín Björg bætti við sínu öðru marki og fimmta marki FH. Krista Sól Nielsen minnkaði muninn í 5:3 á 62. mínútu og fimm mínútum síðar skoraði María Dögg Jóhannesdóttir níunda síðasta mark leiksins og minnkaði muninn í leiðinni í 5:4 og þar við sat.  

Sigurinn var sá fyrsti hjá FH eftir tvö töp en Tindastóll hefur tapað öllum þremur leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert