Leikurinn í Armeníu á áætlun

Undankeppni HM hefst í lok mars.
Undankeppni HM hefst í lok mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á að mæta Armeníu í undankeppni HM í Jerevan í Armeníu hinn 28. mars.

Leikurinn er á áætlun en þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, í samtali við fótbolta.net í dag.

Síðasta haust var leikur U21-árs landsliðs Íslands og Armeníu í undankeppni EM færður til Kýpur vegna stríðsástandsins sem ríkir í Armeníu.

Leikurinn fór hins vegar aldrei fram vegna ástandsins og voru allir leikir Armena í riðlinum þurrkaðir út.

„Eins og staðan er núna spila þeir í Armeníu og við gerum ráð fyrir að spila þar,“ sagði Klara í samtali við fótbolta.net.

„Við erum meðvituð um ástandið þar og höfum leitað okkur ráðgjafar hér heima og hjá UEFA,“ bætti Klara við.

Ísland mætir Þýskalandi í fyrsta leik sínum í undankeppninni 25. mars í Duisburg, ferðast svo til Armeníu og mætir Liechtenstein í Vaduz í lokaleik sínum í landsleikjaglugganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert