Hörmuleg byrjun varð Íslandi að falli

Ísland mátti þola 0:3-tap gegn Þýskalandi á útivelli í fyrsta leik liðsins í J-riðli í undankeppni HM karla í fótbolta í kvöld.

Leikurinn byrjaði afleitlega fyrir íslenska liðið því Leon Goretzka skoraði fyrsta markið strax á 2. mínútu. Hann kláraði þá af öryggi úr teignum eftir góðan undirbúning hjá Serge Gnabry.

Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 2:0. Kai Havertz skilaði þá boltanum í bláhornið fjær eftir sendingu frá Leroy Sané. Eftir annað markið byrjaði íslenska liðið að verjast betur og voru flestar tilraunir Þjóðverja út hálfleikinn utan teigs.

Antonio Rüdiger fékk virkilega gott færi til að breyta stöðunni í 3:0 seint í hálfleiknum en hann skallaði rétt framhjá úr teignum. Rúnar Már Sigurjónsson fékk eina færi Íslands í fyrri hálfleik en hann skaut þá í Rüdiger innan teigs og rétt framhjá. Hálfleikstölur voru því 2:0.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og fékk nokkur fín færi. Það besta fékk Aron Einar Gunnarsson á 51. mínútu en hann skallaði rétt framhjá úr teignum eftir góða sendingu frá Guðlaugi Victori.

Þjóðverjum leyst ekki á blikuna og fimm mínútum síðar gerðu þeir út um leikinn. Ilkay Gundogan negldi þá boltanum í bláhornið utan teigs. Í þriðja sinn átti Hannes litla möguleika í markinu, eftir góða afgreiðslu Þjóðverja.

Eftir þriðja markið róaðist leikurinn nokkuð og var hvorugt liðið líklegt til þess að skora og þriggja marka tap því staðreynd í fyrsta leik Íslands í nýrri undankeppni.

Þýskaland 3:0 Ísland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert