Gamla ljósmyndin: Liðsfélagar í Brugge

Ljósmynd/Kristján Bernburg

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Ljósmyndir úr safni Morgunblaðsins hafa nú verið birtar hér á íþróttavefnum alla laugardaga í eitt ár en fyrsta færslan birtist 28. mars í fyrra. Hingað til hefur íslenskt íþróttafólk úr mörgum greinum komið við sögu. Úr knattspyrnu, frjálsíþróttum, handknattleik, fimleikum, sundi, júdó, körfuknattleik, tennis, golfi, borðtennis, badminton, alpagreinum skíðaíþrótta, kraftlyftingum og hestaíþróttum. 

Hægt er að sjá allar færslurnar til þessa með því að smella hér.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson, og aðstoðarmaður hans Eiður Smári Guðjohnsen, stýrðu íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í fyrsta skipti í Þýskalandi á fimmtudag en þeir voru ráðnir til starfa í vetur. Fram undan hjá þeim eru tveir leikir til viðbótar í undankeppni HM á morgun og miðvikudag.  

Hér er myndin í fullri stærð.
Hér er myndin í fullri stærð. Ljósmynd/Kristján Bernburg

Meðfylgjandi mynd var tekin af Arnari og Eiði keppnistímabilið 2012-2013 þegar þeir voru liðsfélagar hjá Cercle Brugge í Belgíu. Arnar og Eiður léku auk þess ófáa landsleikina saman í yngri landsliðum og A-landsliði en báðir eru þeir fæddir árið 1978. Myndina tók Kristján Bernburg sem hefur verið Morgunblaðinu og mbl.is innan handar í Belgíu í áratugi. Fyrir framan þá stendur sonur Arnars, Viktor Nói. 

Arnar var lengi hjá Cercle Brugge. Varð hann aðstoðarþjálfari liðsins árið 2014 eftir að hafa leikið með því frá árinu 2008. Hófst þar þjálfaraferill Arnars og hann tók við sem knattspyrnustjóri árið eftir og stýrði liðinu eitt keppnistímabil. Síðar var hann aðstoðarþjálfari Lokeren og stýrði Lokeren einnig til bráðabirgða árið 2018. 

Árið 2019 tók Arnar Þór við U-21 árs landsliði karla og þá var Eiður Smári jafnframt aðstoðarþjálfari og hafa þeir því starfað saman nokkrum sinnum sem leikmenn eða þjálfarar. Undir þeirra stjórn komst liðið í lokakeppni EM U21 árs liða sem hófst einmitt í vikunni en Arnar og Eiður þurftu að sleppa hendinni af liðinu þegar þeir tóku við A-landsliðinu og stýra því þar af leiðandi ekki á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert