Kjánalegt að fyrrverandi landsliðsþjálfari og þjálfari minn segi þetta

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og Everton á Englandi, hefur vísað ummælum Guðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara, um ósætti Gylfa Þórs og Eiðs Smára Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfara til föðurhúsanna.

„Ég kannast ekki við ósætti milli mín og Eiðs Smára, nema þá að Guðjón Þórðarson viti eitthvað meira en ég. Þetta er bara kjánalegt að fyrrverandi landsliðsþjálfari og fyrrverandi þjálfari minn sé að segja þetta í einhverju viðtali, ég veit ekki alveg hvaðan þetta kemur,“ sagði Gylfi Þór í samtali við 433.is í dag.

Guðjón, sem þjálfaði Gylfa Þór hjá Crewe Alexandra árið 2009, lét ummælin falla í hlaðvarpsþættinum The Mike Show.

„[V]enjulega myndi ég ekki svara svona. Mér líkar mjög vel við Eið Smára og vildi því hreinlega klára þetta mál strax,“ bætti hann við.

Hefði ekki mátt fara upp á sjúkrahús

Guðjón ýjaði að því að fjarveru Gylfa Þórs frá landsliðinu í yfirstandandi landsleikjaglugga mætti rekja til þessa meinta ósættis við Eið Smára.

„Það er mjög skrýtið að þessi umræða eigi sér stað, eiginkona mín er ólétt og ég ætlaði ekki að missa af fæðingunni. Hvort sem það kæmi á tíma eða eitthvað fyrr, ef það væri ekki fyrir Covid hefði ég getað farið og flogið beint til baka ef hún færi af stað. Það er sóttkví ef ég kem til baka inn í Bretland.

Ef Alexandra hefði farið af stað í gær, þá væri ég í sóttkví í fimm daga. Ég hefði mátt fara á æfingar og í leiki en ég hefði ekki mátt fara upp á sjúkrahús. Það er því miður eina ástæðan [fyrir fjarveru minni] þrátt fyrir að einhverjum hafi kannski þótt hitt vera skemmtileg saga,“ útskýrði Gylfi Þór í samtali sínu við 433.is.

Viðtalið við Gylfa Þór í heild sinni má lesa á 433.is, en þar segir hann nánar frá löngu og ströngu ferðalagi þeirra hjóna í átt að því að eignast barn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert