Aldrei gaman að fá á sig mark beint úr horni

Rúnar Alex Rúnarsson fékk mark á sig beint úr hornspyrnu.
Rúnar Alex Rúnarsson fékk mark á sig beint úr hornspyrnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland vann 4:1-sigur á Liechtenstein í undankeppni HM karla í fótbolta 2022 á útivelli í kvöld. Markið sem Liechtenstein skoraði kom á 79. mínútu þegar Yanik Frick gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu. 

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari vildi ekki endilega kenna Rúnari Alex Rúnarssyni í marki Íslands um markið, þrátt fyrir að hann hafi ekki litið vel út. 

„Það er aldrei gaman að fá mark á sig beint úr horni. Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur. Þegar það er skorað úr horni er það oft ótrúlegustu boltar sem fara hátt og koma strax aftur niður. Sami leikmaður átti eina skotið þeirra að markinu og það var aukaspyrna af 40 metra færi og hann var búinn að reyna þetta áður. Kannski skorar hann aldrei aftur úr horni,“ sagði Arnar á blaðamannafundi eftir leik. 

Hannes Þór Halldórsson spilaði tvo fyrstu leikina í þessum glugga og Rúnar fékk tækifærið í kvöld. Arnar er ekki búinn að ákveða hver stendur í markinu í næsta leik. 

„Það var ákveðið fyrir fram að við myndum byrja með Hannes í þessu verkefni. Við vorum með plan A, B og C og út af þessum ferðalögum vissum við að það yrði erfitt fyrir Hannes að byrja þrjá leiki. Rúnar Alex spilaði í dag en við erum mjög ánægðir með Ömma í þessa tíu daga. Við munum mjög líklega nota þessa þrjá áfram og halda áfram að skoða hvernig landið liggur. Það verður að koma í ljós,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert