Einstefna frá fyrstu mínútu

Arnar Þór Viðarsson stýrði Íslandi í fyrsta skipti til sigurs …
Arnar Þór Viðarsson stýrði Íslandi í fyrsta skipti til sigurs í kvöld. AFP

„Mjög mikill léttir,“ var það fyrsta sem landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson sagði á blaðamannafundi eftir 4:1-sigur á Liechtenstein ytra í undankeppni HM karla í fótbolta 2022. Sigurinn var sá fyrsti hjá liðinu undir stjórn Arnars. 

„Það var gott að klára þennan leik og stjórna honum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Ég hefði viljað fara með stærra forskot inn í hálfleikinn. Við áttum mörg færi í fyrri hálfleik. Mikilvægast var að vinna 4:1-sigur. Þetta var einstefna frá 1. mínútu og það var jákvætt að geta stjórnað svona leik í 90 mínútur,“ sagði hann. 

Arnar viðurkennir að hann vildi sex stig úr leikjunum þremur sem búnir eru, en verður að sætta sig við þrjú. 

„Við fórum inn í gluggann með því markmiði að ná í sex stig. Það var svekkelsi og vonbrigði að tapa í Armeníu en eins og ég sagði eftir þann leik verður þessi riðill rosalega skrítinn. Liðin eru að taka stigin af hvort öðru og Armenar eru ekki leikmenn sem eru nýbyrjaðir í fótbolta. Þeir eru með gott lið og með mikið sjálfstraust,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert