Konurnar á leið í sóttvarnahús

Agla María Albertsdóttir er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Ítalíu …
Agla María Albertsdóttir er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Ítalíu í apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eru á leið í svokallað sóttvarnahús eftir landsleikina gegn Ítalíu á Enzo Bearzot-vellinum í Coverciano á Ítalíu.

Þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, í samtali við mbl.is í dag en Ísland leikur tvo leiki gegn Ítölum dagana 10. og 13. apríl.

Mikil óánægja ríkir með þetta hjá þjálfurum liða í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, en alls leika átta af 23 leikmönnum í hópnum á Íslandi, fimm þeirra með Breiðabliki og þrjár með Val.

Keppni í úrvalsdeild kvenna hefst 4. maí næstkomandi með tveimur leikjum en ljóst er, ef ekkert breytist, að þjálfarar fá ekki leikmenn sína aftur á æfingasvæðið fyrr en í fyrsta lagi 19. apríl.

„Eins og staðan er í dag virðist allt benda til þess að þær þurfi að fara í sóttvarnahús við komuna til landsins,“ sagði Klara.

„Það getur hins vegar ýmislegt breyst á skömmum tíma í þessu og Spánn var sem dæmi að detta út af þessum lista stjórnvalda í dag.

„Þótt Ítalía sé á listanum yfir skilgreind áhættusvæði getur það breyst en þetta er svo sem ekki mikil breyting enda eru liðin vön því að þurfa að fara í sóttkví við komuna til landsins eftir verkefni erlendis,“ sagði Klara.

Í svokölluðu sóttvarnahúsi þurfa leikmenn að dvelja í fimm daga, lokaðir inni í herbergi, og því ljóst að þeir geta ekki æft fyrir komandi tímabil, ólíkt ef þeir færu í sóttkví í sumarbústað út á land sem dæmi þar sem þeim er frjálst að hreyfa sig ef þeir eru ekki í námunda við annað fólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert