Vildum skilja allt eftir á vellinum

Davíð Snorri Jónasson á hliðarlínunni í dag.
Davíð Snorri Jónasson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Við lögðum þetta upp þannig að reyna láta Robba [Róbert Orra Þorkelsson] vera með boltann og spila honum þannig upp á Andra [Fannar Baldursson],“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi á samfélagsmiðlinum Teams eftir 2:0-tap gegn Frakklandi í lokaleik liðsins í lokakeppni EM 2021 í Györ í Ungverjalandi í dag.

„Auðvitað langaði okkur að gera meira með boltann en það er oft erfitt að vera í pressu og ætla svo að reyna halda honum en það er eitthvað sem lærist með tímanum. Ég verð samt að hrósa liðinu fyrir þau augnablik sem við áttum.

Heilt yfir þá erum við ekki sáttir með að tapa þessum þremur leikjum en þegar ég horfi til baka þá áttum við góð augnablik í þeim öllum. Við áttum líka slæm augnablik sem við þurfum að læra af. Við vorum vel einbeittir stóran hluta leikjanna en í þessum hæsta gæðaflokki er manni refsað grimmilega fyrir öll mistök,“ sagði Davíð.

Davíð vildi sjá leikmenn sína skilja allt eftir á vellinum í lokaleiknum.

„Markmiðið í þessum síðasta leik var fyrst og fremst að skilja allt eftir á vellinum. Við sem knattspyrnuþjóð verðum alltaf að halda áfram, sama hvað, og mér fannst við gera það mjög vel í þessari lokakeppni. 

Auðvitað þurfum við bæði aga og skipulag gegn þessum sterkustu þjóðum en við sýndum það líka að við erum með frábært hugarfar sem lið og það er eitthvað sem við getum byggt ofan á,“ bætti Davíð Snorri við.

mbl.is