Króatinn aftur í raðir ÍA

Dino Hodzic markvörður.
Dino Hodzic markvörður. Ljósmynd/ÍA

Króatíski knattspyrnumarkvörðurinn Dino Hodzic er kominn í raðir úrvalsdeildarliðs ÍA á nýjan leik en hann hefur samið um að leika með liðinu á þessu keppnistímabili.

Hodzic, sem er 25 ára gamall, kom til ÍA frá Mezökövesd í Ungverjalandi síðsumars 2019 og var varamarkvörður liðsins á lokaspretti keppnistímabilsins en spilaði ekki leik.

Hann færði sig síðan yfir í raðir Kára á Akranesi á síðasta ári og lék alla tuttugu leiki liðsins í 2. deildarkeppninni, og þótti einn besti markvörður deildarinnar.

Hodzic mun því keppa við Árna Snæ Ólafsson um markvarðarstöðuna hjá ÍA en Árni hefur ekki misst úr deildarleik með Skagaliðinu frá 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert