„Margar ungar sem eru orðnar mjög góðar“

Hallbera Guðný Gísladóttir á 117 landsleiki að baki.
Hallbera Guðný Gísladóttir á 117 landsleiki að baki. Eggert Jóhannesson

Hallbera Guðný Gísladóttir, reynslumesti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður AIK í Svíþjóð, segir nýliða og minna reynda leikmenn vera að koma vel inn í landsliðshópinn fyrir tvo vináttuleiki gegn Ítalíu á næstunni.

 „Bara mjög vel. Það hefur verið nokkuð mikil endurnýjun en við eru komnar með mjög góða blöndu í hópinn. Það eru margar ungar sem eru nú þegar orðnar mjög góðar. Þannig að þetta er áhugaverð blanda af eldri og yngri leikmönnum,“ sagði Hallbera á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Hún sagði það kærkomið að fá þessa leiki gegn Ítölum enda um fjórir mánuðir liðnir frá síðasta verkefni. „Það er langt síðan við hittumst síðast og það er mikilvægt að fá þessa leiki. Það er auðvitað krefjandi að ferðast á milli landa en það er í lagi.“

Hallbera sagði ekki mikið hafa breyst með nýjum landsliðsþjálfara, Þorsteini Halldórssyni, sem er að fara í sitt fyrsta verkefni með liðið, þótt hann sé vissulega að leggja sitt handbragð á liðið.

„Það er auðvitað nýtt þjálfaralið og æfingarnar hjá Steina hafa verið góðar. Við höfum aðallega verið að fara yfir taktíkina en hann setur sitt mark á æfingarnar. Svo er líka gott að fá Ása (Ásmund Haraldsson aðstoðarþjálfara) aftur, hann er mikið með reit og er mjög hress.“

Hópurinn er ekki kominn það langt að búið sé að móta markmið fyrir EM 2022 í Englandi næsta sumar. „Við höfum ekki beint farið í markmiðasetningu en eins og ég sagði er þessi hópur blanda af reyndum og óreyndum leikmönnum.

Þeir sem hafa farið á stórmót vita hvernig það er og við viljum fara á þetta mót til að gera eitthvað, við munum aldrei bara fara til að vera með. Markmiðið er að slípa þennan hóp saman og þá er hann til alls líklegur. Við höfum nægan tíma fyrir stórmótið, það eru til dæmis leikir í haust. Þessi hópur býr yfir miklum möguleikum,“ sagði Hallbera.

Er mikill viskubrunnur

Hallbera er leikjahæsti leikmaðurinn í hópnum með 117 landsleiki. Aðspurð hvort hlutverk hennar sé eitthvað breytt þar sem hún sé elst, reynslumest og Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði fjarverandi, sagði hún:

Ég er náttúrlega mikill viskubrunnur. Nei, nei, ég er oft alveg jafn mikil steik og þessir yngri leikmenn. En ég reyni að miðla af reynslu minni með því að tala og stýra. Ég er ekki mikið að nota aldurinn gegn leikmönnum.

Hallbera var þá spurð út í hinn vinstri bakvörð landsliðsins, Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur, 19 ára leikmann Íslandsmeistara Breiðabliks. Hún er frábær leikmaður og framtíðin í þessu liði. Við erum kannski svolítið svipaðir leikmenn. Ef hún spilar styð ég 100 prósent við bakið á henni. En auðvitað vil ég spila.

Fyrri vináttuleikur landsliðsins gegn Ítalíu fer fram þar ytra klukkan 14 á laugardaginn. Báðir leikirnir fara fram í æfingamiðstöð ítalska knattspyrnusambandsins í Flórens.

mbl.is