„Þakka Guði fyrir að vera úti í Svíþjóð“

Hallbera Guðný Gísladóttir er komin aftur í atvinnumennskuna í Svíþjóð.
Hallbera Guðný Gísladóttir er komin aftur í atvinnumennskuna í Svíþjóð. Eggert Jóhannesson

Í byrjun árs gekk Hallbera Guðný Gísladóttir til liðs við AIK í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna. Um er að ræða þriðja skiptið sem hin 34 ára gamla Hallbera fer í atvinnumennsku í Svíþjóð.

Hún kveðst lukkuleg með vistaskiptin. „Það var mjög gott skref fyrir mig að fara út. Það er álag heima að vinna með fótboltanum. Ég er í skóla núna og hef getað sinnt fótboltanum og náminu. Þetta hefur verið mjög fínt, sérstaklega núna þegar allt er stopp heima. Ég þakka Guði fyrir að vera úti í Svíþjóð þar sem allt er frekar afslappað,“ sagði Hallbera á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Spurð um hvort tímar hennar hjá Piteå, sem Hallbera lék með árin 2012-2013, og Djurgården, sem hún lék með árið 2017, væru frábrugðnir þeim sem hún er að upplifa núna hjá AIK sagði Hallbera:

„Þetta er mjög stór klúbbur og það er verið að setja meira púður í kvennaliðið núna. Þessir stóru klúbbar eru aðeins að vakna. Maður sér það sem er að gerast á Englandi og Spáni. Þeirra markmið er að setja meira í kvennaliðið.

Hingað til hefur þetta verið mjög flott. Við æfðum á Friends Arena allt undirbúningstímabilið og fengum morgunmat fyrir æfingu og hádegismat eftir hana, þá leið manni eins og atvinnumanni. Það er frábært að geta einbeitt sér að fótboltanum.“

AIK er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni og því sagði Hallbera markmið liðsins fyrir komandi tímabil einfalt: „Þetta er ungt lið og það eru margar að spila í fyrsta skipti í úrvalsdeild. Það verður barátta að halda félaginu uppi. Það er markmiðið. Svo byggjum við ofan á það.”

mbl.is