„Erum að skoða leikmenn og gerum miklar breytingar“

Ásmundur Guðni Haraldsson aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, Þorsteinn Halldórsson þjálfari og Guðni …
Ásmundur Guðni Haraldsson aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, Þorsteinn Halldórsson þjálfari og Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Kris

„Þetta hefur gengið fínt, það er ekki yfir neinu að kvarta og allar heilar í hópnum. Við höfum æft vel á góðum völlum og tekið jafnmargar æfingar og fundi. Við höfum farið í gegnum margt og reynum að koma hlutunum skilmerkilega til skila.“

Þetta sagði Þorsteinn Halldórsson, nýr þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag um hvernig hafi gengið hingað til í hans fyrsta verkefni með liðið, sem eru tveir vináttulandsleikir gegn Ítalíu, sá fyrri á morgun og hinn á þriðjudaginn kemur.

„Við vitum lítið um ítalska liðið og hverjir eru að fara að spila á morgun. Þær völdu 33 leikmenn í hópinn sinn og við gerum okkur því ekki alveg grein fyrir því.

Ég geri þó ráð fyrir því að þær stilli upp sínu sterkasta liði á þriðjdudaginn og að leikmenn sem eru seinni í goggunarröðinni verði í stærra hlutverki á morgun, en það hefur þó ekki verið tilkynnt,“ sagði Þorsteinn um ítalska liðið.

Upplegg íslenska liðsins á morgun verður þó ákveðið, burtséð frá hvaða leikmenn Ítalíu spila leikinn. „Við munum reyna að halda í boltann eins mikið og við getum og reyna að vera skapandi í okkar leik. Þótt við gerum okkur ekki fulla grein fyrir því hversu sterkt lið Ítalíu verður munu þær stilla upp sterku liði eins og við. Við verðum að vera taktísk og öguð og förum með ákveðna hugmyndafræði, varnar- og sóknarlega, í leikinn,“ sagði hann.

Tækifæri fyrir aðra að taka að sér leiðtogahlutverk

Sjálfur gerir Þorsteinn ráð fyrir því að spila á mörgum leikmönnum í verkefninu á Ítalíu. „Við munum rúlla liðinu mikið og allir útileikmenn koma til með að spila. Það verða margar breytingar á milli leikja. Við erum að skoða leikmenn og munum því gera töluvert miklar breytingar.“

Hann sagði vitanlega missi að Söru Björk Gunnarsdóttur fyrirliða og Dagnýju Brynjarsdóttur en í fjarveru þeirra skapist tækifæri fyrir aðra. „Það er aldrei gott að missa lykilleikmenn en þetta er raunveruleikinn sem við búum við í dag.

Það er alltaf missir að góðum leikmönnum en þetta gefur öðrum leikmönnum tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og taka að sér leiðtogahlutverk. Við teljum okkur vera með leikmenn til að stýra leiknum inni á miðjunni.“

mbl.is