Mesta keppnismanneskja sem ég þekki með mér sjálfri

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var ein fjögurra leikmanna Íslands sem léku allan leikinn gegn Ítalíu er liðin mættust í vináttulandsleik í knattspyrnu ytra í dag. Að lokum hafði Ítalía betur í jöfnum leik, 1:0. 

„Þessi leikur var kaflaskiptur og okkar fyrsti leikur undir Steina. Hann undirbjó okkur mjög vel. Ungu stelpurnar komu vel inn og við gáfum allt í þetta. Við getum verið sáttar með margt þrátt fyrir tap,“ sagði Gunnhildur á blaðamannafundi eftir leik en hún var fyrirliði liðsins í dag.

Ítalska liðið fékk ekki fleiri né betri færi en Ísland en tókst samt að landa sigri. „Við þurfum að róa okkur á seinasta þriðjungnum. Við vorum að koma okkur þangað en vantaði að klára það sem við reyndum. Við verðum að laga það. Við spiluðum vel og komum okkur fram völlinn. Það vantaði bara mörkin,“ sagði Gunnhildur og bætti við að margt hefði betur mátt fara í sigurmarkinu. 

„Það er margt. Í fyrsta lagi fannst mér brotið á Guðnýju en við förum þrjár út í boltann og hún fær fyrirgjöfina. Svo var þetta bara óheppni inni í teig. Við þurfum að vera aðeins meira á tánum. Svona gerist bara í fótboltanum og því miður datt þetta þeirra megin,“ sagði hún. 

Gunnhildur segir Þorstein Halldórsson hafa komið vel inn í starf landsliðsþjálfara. „Ég er mjög ánægð að fá hann. Hann hefur komið sínum áherslum vel og skýrt fram. Það er gott fyrir okkur. Það eru margar sem þekkja hann vel og það er ágætt.“

Gunnhildur skipti á dögunum yfir til Orlando Pride í Bandaríkjunum þar sem hún leikur m.a. með hinni brasilísku Mörtu, sem er einn besti leikmaður allra tíma. 

„Ég er heppin að eiga góða liðsfélaga. Ég er mjög ánægð þarna og mér finnst ég verða betri með aldrinum. Marta er geggjuð. Ég hélt hún myndi róast með aldrinum, en hún er mesta keppnismanneskja sem ég þekki með mér sjálfri. Það er hægt að læra mikið af henni og ég er mjög ánægð með að hafa hana þarna,“ sagði Gunnhildur.

mbl.is