Sé hann ekki spila fótbolta aftur

Björgvin Stefánsson í leik með KR sumarið 2019.
Björgvin Stefánsson í leik með KR sumarið 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, á ekki von á því að framherjinn Björgvin Stefánsson geti spilað fótbolta aftur vegna gigtarsjúkdóms sem hefur verið að hrjá hann.

Björgvin gat ekkert spilað með KR á síðustu leiktíð en spilaði 30 leiki og skoraði níu mörk í efstu deild 2018 og 2019 fyrir KR. „Hann hefur nánast ekkert æft með okkur, hann er með gigtarsjúkdóm sem virðist ekki lagast með lyfjagjöf,“ sagði Rúnar í viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á X977 í dag.

„Þótt hann byrji að æfa þá væru mánuðir í að hann gæti spilað. Það er dökkt útlit með hann og ég sé hann ekki spila aftur fótbolta eins og staðan er núna,“ bætti Rúnar við og sagði Björgvin ekki hafa getað tekið þátt á fótboltaæfingu í átta eða níu mánuði.

Björgvin gekk til liðs við KR haustið 2017 en hann er 27 ára gamall og spilaði fyrst með Haukum. Hann á alls 46 leiki í efstu deild hér á landi og í þeim 11 mörk.

mbl.is