Erum að slípa okkur saman undir nýjum þjálfara

Elín Metta Jensen fagnar marki gegn Lettlandi á Laugardalsvellinum í …
Elín Metta Jensen fagnar marki gegn Lettlandi á Laugardalsvellinum í september á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvenna­landsliðið í fót­bolta mátti þola naumt 0:1-tap fyr­ir Ítal­íu í vináttu­leik í Flórens í gær og segir Elín Metta Jensen að hópurinn sé að slípa sig saman undir stjórn nýs þjálfara.

„Við erum að slípa okkur saman undir nýjum þjálfara og læra inn á hans áherslur. Leikurinn í gær var ágætur þannig séð þótt auðvitað megi laga margt,“ sagði Elín í samtali við mbl.is í dag. „Við hefðum getað verið ákveðnari og nýtt það betur þegar ítölsku leikmennirnir fóru úr stöðum, þá gátum við farið á bak við þær.

Leikurinn í gær var sá fyrsti hjá landsliðinu undir stjórn Þorsteins Halldórssonar sem tók við liðinu í janúar og jafnframt fyrsti leikur liðsins frá því það lagði Ungverja að velli 1. desember og tryggði sér með því sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer á Englandi sumarið 2022.

Þótt auðvitað taki smá tíma fyrir hópinn að læra inn á nýjan þjálfara segist Elín hæstánægð með innkomu Þorsteins. „Ég er ánægð með hvað við höfum skýr hlutverk hjá Steina, hann hefur komið mjög vel inn í þetta.“

Þá má ekki gleyma því að í íslenska liðið vantaði mikilvæga leikmenn, fyrirliðann Söru Björk Gunnarsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur. Á móti fengu yngri og óreyndari leikmenn að spreyta sig. Hin 17 ára gamla Cecil­ía Rán Rún­ars­dótt­ir fékk tækifærið í markinu, þá var Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir bakvörður að spila sinn þriðja landsleik.

„Ungu leikmennirnir eru að koma sterkir inn og gefa okkur því mikilvæga breidd fyrir komandi verkefni. Cecilía var frábær og var að verja erfið skot í gær,“ sagði Elín Metta við mbl.is.

Liðin mætast aftur í Flórens á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert