Gott að fá alvöruleiki

Guðrún Arnardóttir og Almuth Schult í landsleik Íslands og Þýskalands …
Guðrún Arnardóttir og Almuth Schult í landsleik Íslands og Þýskalands frá 2018. Eggert Jóhannesson

Guðrún Arnardóttir var ein fjög­urra leik­manna Íslands sem léku all­an leik­inn gegn Ítal­íu er liðin mætt­ust í vináttu­lands­leik í knatt­spyrnu ytra í dag. Að lok­um hafði Ítal­ía bet­ur í jöfn­um leik, 1:0, en Guðrún var að spila sinn fyrsta landsleik í tvö ár.

„Heilt yfir áttum við fína spilkafla í fyrri hálfleik þó við missum aðeins dampinn rétt fyrir hlé. Svo erum við ekki jafn stöðugar í seinni hálfleik,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is í dag en Ari­anna Caru­so skoraði sigurmark Ítala á 72. mínútu eftir smá vandræðagang á vörn íslenska liðsins.

Gunn­hild­ur Yrsa Jóns­dótt­ir og Þorsteinn Halldórsson þjálfari vildu bæði meina að brotið hefði verið á Guðnýju Árnadóttur í aðdraganda marksins. „Ég sá það ekki almennilega en eftir að hafa talað við stelpurnar þá held ég að þetta hafi verið brot.“

Leikurinn var sá fyrsti undir stjórn Þorsteins sem tók við liðinu í janúar og sá fyrsti hjá liðinu frá því það lagði Ung­verja að velli 1. des­em­ber og tryggði sér með því sæti í loka­keppni Evr­ópu­móts­ins sem fram fer á Englandi sum­arið 2022.

„Það er gott að geta fengið alvöruleiki og komið öllum hópnum á sömu blaðsíðu. Við erum með nýjan þjálfara og Steini er að gefa leikmönnum tækifæri,“ sagði Guðrún við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert