Góð teikn á lofti þrátt fyrir tap

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð á milli stanganna í vináttulandsleiknum gegn …
Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð á milli stanganna í vináttulandsleiknum gegn Ítalíu á dögunum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mátti þola 0:1-tap fyrir Ítalíu í vináttuleik í Flórens á laugardaginn var í fyrsta leik liðsins undir stjórn Þorsteins Halldórssonar. Þorsteinn tók við liðinu af Jóni Þór Haukssyni í janúar. Ítalska liðið er mjög sterkt og hefur m.a. tekið þátt á öllum Evrópumótum frá 1997 og þá fór liðið alla leið í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins í Frakklandi fyrir tveimur árum.

Cecilía fyrsti kostur?

Íslenska liðið, sem var yngra en oft áður, þarf því ekki að skammast sín fyrir naumt tap í jöfnum leik sem hefði getað dottið hinum megin. Fimm leikmenn byrjunarliðsins voru fæddir árið 2000 eða síðar. Þá fékk Cecilía Rán Rúnarsdóttir tækifæri í markinu og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lék í vinstri bakverði. Þær nýttu tækifærin afar vel og voru á meðal betri leikmanna Íslands í leiknum. Cecilía átti nokkur góð úthlaup, greip vel inn í og var örugg í sínum aðgerðum. Það verður mjög áhugavert að sjá hvort hún verði fyrsti kostur í markið í komandi undankeppni HM og jafnvel í lokakeppni EM á næsta ári, en hún er aðeins 17 ára. Áslaug Munda varðist heilt yfir vel og kom með nokkur hættuleg hlaup upp kantinn, eins og hún hefur gert með Breiðabliki undanfarin ár.

Sara Björk Gunnarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru ekki með í verkefninu og því fékk Alexandra Jóhannsdóttir stærra hlutverk sem hún skilaði virkilega vel. Alexandra er orðin lykilmaður í þessu landsliði og hefur henni verið líkt við Söru Björk, enda báðar uppaldar hjá Haukum og spila báðar á miðjunni.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert