Þó nokkrar breytingar í vændum

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Allir leikmenn eru heilir heilsu og ég á von á þó nokkrum breytingum á byrjunarliðinu,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag. Ísland mætir Ítalíu í vináttulandsleik í Flórens á morgun en liðin mættust einnig á laugardaginn síðasta í Flórens þar sem ítalska liðið vann 1:0-sigur.

„Það er margt jákvætt úr síðasta leik og við héldum boltanum vel sem dæmi. Það voru ákveðnar leiðir sem við hefðum getað farið sóknarlega en okkur tókst ekki að nýta okkur þær.

Ég er heilt yfir sáttur enda var þetta fyrsti leikur liðsins undir minni stjórn og erfitt að troða öllu inn sem maður vill sjá liðið gera. 

Við vorum óhræddar við að vera með boltann og stýra leiknum. Við vorum þéttar þegar við töpuðum boltanum og gáfum fá færi á okkur,“ bætti Þorsteinn við.

Elín Metta Jensen leiddi sóknarlínu íslenska liðsins gegn Ítölum á …
Elín Metta Jensen leiddi sóknarlínu íslenska liðsins gegn Ítölum á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægir leikir

Þorsteinn er ánægður með tímann sem hann hefur fengið með liðið á Ítalíu.

„Þessir leikir skipta öllu máli því þetta er frábær undirbúningur fyrir leikina sem skipta virkilega máli.

Við sáum það í síðasta landsleikjaglugga hjá karlaliðinu að það var ekki auðvelt að fá einhverja þrjá daga til að undirbúa sig fyrir verkefnin í undankeppni HM.“

Íslenska liðinu tókst ekki að skora gegn Ítölum en þrátt fyrir það var þjálfarinn sáttur við sóknarleikinn.

„Auðvitað hefði ég viljað sjá liðið skapa fleiri færi en ég var ég alls ekki ósáttur við sóknarleikinn.

Það voru ákveðnir hlutir sem við hefðum getað gert betur en það kemur,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is