Hæstánægður með nýliðana

Þorsteinn Halldórsson var nokkuð sáttur í dag.
Þorsteinn Halldórsson var nokkuð sáttur í dag. mbl.is/Kris

Þorsteinn Halldórsson stýrði íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta í fyrsta sinn í tveimur vináttuleikjum við Ítalíu. Ísland tapaði fyrri leiknum á laugardaginn var, 0:1, og í dag skildu þau jöfn, 1:1.

„Ég er sáttur að mörgu leyti. Mér fannst við ná að gera vel. Við fengum mark á okkur á fyrstu mínútunni en svo vinnum við okkur inn í leikinn. Þetta voru góð svör við því sem við höfum gert undanfarna daga. Við gerðum sjö breytingar og það var óöryggi í byrjun og það kom ekki á óvart,“ sagði Þorsteinn.

Hann segir sóknarleik liðsins betri í dag en á laugardag. „Við fengum fleiri góðar stöður og einhver færi. Við náðum að spila honum betur inn í pláss sem bjó til svigrúm til að búa til dauðafæri en við verðum að vinna í sendingum á síðasta þriðjungi,“ sagði Þorsteinn sem síðan lýsti báðum mörkum leiksins í dag.

„Í markinu þeirra komast þær á bak við okkur á vængnum og það verður misskilningur. Hún stingur sér fram fyrir. Í markinu okkar náum við að halda í boltann. Berglind leggur boltann á Karólínu sem skorar. Það var fínt mark og við erum sátt við að skora í þessari ferð, það var ágætisbyrjun.“

Hann segist hafa náð að koma sínum áherslum inn í leik liðsins. „Mér fannst margt í ferðinni hafa gengið upp og náð að setja inn ákveðna hluti. Við erum sátt við það. Þetta er enginn tikitaka-bolti en við viljum halda í boltann þegar við getum það, en svo verjast þegar við erum ekki með boltann. Það er alltaf lengri tími sem fer í það að búa til sóknarleik en varnarleik.“

Þorsteinn var ánægður með þær Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur og Karitas Tómasdóttur sem léku sína fyrstu landsleiki í ferðinni.

„Mjög svo. Hafrún spilaði vel í dag og var góð. Hún vann sig vel inn í leikinn. Hún er nýliði sem kemur inn og fær mark á sig í byrjun en hún gerði vel í að vinna sig inn í leikinn. Karitas kemur alltaf með kraft inn á miðsvæðið. Hún þarf áfram að vinna í því að skila boltanum frá sér og ef hún nær því í bland við kraftinn sinn á hún eftir að vera frábær leikmaður,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is