Karólína tryggði Íslandi jafntefli

Hallbera Guðný Gísladóttir í baráttunni í Flórens í dag.
Hallbera Guðný Gísladóttir í baráttunni í Flórens í dag. Ljósmynd/@AzzurreFIGC

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði jöfnunarmark Íslands þegar liðið mætti Ítalíu í vináttulandsleik í Flórens á Ítalíu í dag.

Þetta var annar leikur liðanna á fjórum dögum en leiknum í dag lauk með 1:1-jafntefli.

Valentina Giacinti kom ítalska liðinu strax á fyrstu mínútu þegar hún skoraði af stuttu færi úr markteignum.

Valentina Bergamaschi átti þá frábæra sendingu frá hægri á Giacinti, íslensku varnarmennirnir gleymdu sér í dekkningunni, og kom boltanum í netið með viðstöðulausu skoti.

Á 40. mínútu vann Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir boltann djúpt á vallarhelmingi ítalska liðsins.

Gunnhildur sendi boltann fyrir markið á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem reyndi að leika á varnarmenn Ítala.

Boltinn hrökk til Sveindísar Jane Jónsdóttur sem lagði hann snyrtilega út fyrir teiginn á Karólínu Leu sem hamraði boltann upp í samskeytin og staðan orðin 1:1.

Bæði lið fengu tækifæri til þess að koma boltanum í netið í síðari hálfleik en tókst ekki að nýta færin sem skildi og jafntefli því niðurstaðan.

Ítalía 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 1:1-jafntefli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert