Hafði mikil áhrif á lykilmenn

Logi Ólafsson, þjálfari FH.
Logi Ólafsson, þjálfari FH. mbl.is/Árni Sæberg

„Við báðum um að fá alla vega tvær vikur til þess að undirbúa okkur fyrir fyrsta mótsleik,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari knattspyrnuliðs FH, í samtali við mbl.is í dag.

Í gær tilkynnti ríkisstjórn Íslands að íþróttir hér á landi gætu hafist á nýjan leik frá og með morgundeginum eftir þriggja vikna æfinga- og keppnisbann en til stendur að úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildin, fari af stað um mánaðamótin apríl/maí.

„Við höfum teiknað þetta upp þannig að við förum í raun bara í svipaða rútínu og við erum vanir að nota þegar tímabilið er í fullum gangi.

Við spilum æfingaleik við Fram á föstudaginn kemur klukkan 17:30. Þetta verður svipað hjá okkur líka í næstu viku og þá ættum við að vera eins tilbúnir og hægt er að vera, svona miðað við aðstæður í það minnsta,“ bætti Logi við.

Steven Lennon var á góðri leið með að bæta markametið …
Steven Lennon var á góðri leið með að bæta markametið þegar keppni var hætt síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Sést fljótt ef menn slökuðu á

FH-ingar voru hægt og rólega að finna taktinn þegar hertar sóttvarnareglur tóku gildi í mars en liðið hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildarinnar, á síðustu leiktíð.

„Við vorum komnir á mjög gott skrið og mælingar okkar sýndu að menn voru almennt í mjög góðu standi. Það voru engin meiðsli í leikmannahópnum en eins og flestir vita skaut veiran upp kollinum í hópnum en það hefur ekki haft nein áhrif á okkur þannig.

Við höfum fylgst vel með strákunum á meðan æfinga- og keppnisbannið var við lýði þótt við höfum ekki verið með leikmennina í einhverjum sérstökum mælingum meðan á því stóð. Maður sér það fljótt hvort menn hafi verið að slaka á þannig að þetta horfir bara vel við mér.“

Björn Daníel Sverrisson er einn þeirra leikmanna sem átti erfitt …
Björn Daníel Sverrisson er einn þeirra leikmanna sem átti erfitt með fyrirkomulagið sem var við lýði á síðustu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

Skapar andlega þreytu

Leikmenn FH eru reynslunni ríkari eftir erfitt tímabil á síðustu leiktíð.

„Við þekkjum þetta frá árinu í fyrra hvernig það er að vera sífellt að stoppa og byrja svo aftur. Þetta skapar fyrst og fremst andlega þreytu og líkamlega hættu á því að byrja aftur af of miklum krafti.

Við þurfum því að passa okkur að fara ekki um of eftir svona hlé en við erum reynslunni ríkari frá því í fyrra. Það er samt ekkert leyndarmál að það eru ákveðnir leikmenn í okkar hóp sem eru mjög háðir því að geta haldið áætlun í stað þess að fara heim í sóttkví, og þetta hafði mikil áhrif á þá,“ sagði Logi í samtali við mbl.is.

mbl.is