Flókið starf að vera þjálfari

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga. mbl.is/Bjarni Helgason

„Ég er mjög sáttur við að vera búinn að skrifa undir nýjan samning hérna í Víkinni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari knattspyrnuliðs Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í Víkinni í dag.

Þjálfarinn framlengdi samning sinn við félagið um tvö ár í dag, eða til loka tímabilsins 2023, en um óuppsegjanlegan samning er að ræða af beggja hálfu.

„Mér líður virkilega vel hérna og ég nýt mikils stuðnings, bæði frá stjórnarmeðlimum, leikmannaráði og stuðningsmönnum.

Þegar andrúmsloftið er svona gott á vinnustaðnum þá er engin ástæða til þess að vera breyta eitthvað til og þetta er líka ákveðin viðurkenning á mínum störfum.

Þeir eru ekki bara að taka einhverja áhættu með mig heldur er ég líka að taka áhættu á þeim sem klúbbi,“ bætti Arnar við.

Júlíus Magnússon og Kian Paul Williams eigast við í leik …
Júlíus Magnússon og Kian Paul Williams eigast við í leik Víkinga og Keflavíkur í deildabikarnum í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar, sem er 48 ára gamall, hefur stýrt Víkingum frá árinu 2018 og gerði liðið meðal annars að bikarmeisturum sumarið 2019.

„Ég er ungur þjálfari og óreyndur ef svo má segja. Þetta er mitt þriðja ár sem aðalþjálfari og þetta er virkilega flókið starf.

Það er margt sem þarf að læra, margar gildrur sem hægt er að falla í og það varð aðeins raunin í fyrra.

Þetta er starf þar sem þú þarft stöðugt að vera að leita þér þekkingar svo þú verðir ekki eftir á þannig að síðasta ár fer í reynslubankann og það er bara eitthvað sem ég ætla mér að læra af,“ sagði Arnar meðal annars.

Ítarlegt viðtal við knattspyrnuþjálfarann birtist í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert