„Betra að halda kjafti“

Arnar Gunnlaugsson er að hefja sitt þriðja tímabil með Víkingsliðið.
Arnar Gunnlaugsson er að hefja sitt þriðja tímabil með Víkingsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari knattspyrnuliðs Víkings úr Reykjavík, er reynslunni ríkari eftir erfitt síðasta tímabil þar sem Víkingar, sem ætluðu sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn, höfnuðu í tíunda og þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Þjálfarinn framlengdi samning sinn í Víkinni um tvö ár í gær og er hann óuppsegjanlegur af beggja hálfu en Arnar, sem er 48 ára gamall, tók við Víkingsliðinu eftir tímabilið 2018 og gerði það að bikarmeisturum sumarið 2019.

Það var margt sem fór úrskeiðis í Víkinni á síðustu leiktíð en liðið vann aðeins þrjá leiki af átján.

„Veturinn var frábær en svo kemur langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins í aðdraganda mótsins. Eftir á að hyggja þá gerðum við kannski ekki nóg í þeirri pásu og gáfum ákveðinn afslátt af æfingum. Núna var enginn afsláttur gefinn og við hlupum mun meira í þessu hléi en fyrir ári.

Við vorum yfirlýsingaglaðir í fyrra, bæði vegna þess að okkur gekk virkilega vel á undirbúningstímabilinu, og eins af því að við vorum með frábært lið í höndunum, sérstaklega byrjunarlið, og það var erfitt að finna annað lið með jafn sterkt byrjunarlið og okkar.

Okkur gekk hins vegar illa að halda mönnum heilum, marga leiki í röð, og það kom upp ákveðinn óstöðugleiki. Við teljum okkur vera komna með betra jafnvægi í hópinn núna, með tilkomu Pablos Punyeds inn á miðsvæðið sem dæmi.“

Láta verkin tala

En hver eru markmið Víkinga fyrir komandi keppnistímabil?

„Maður er reynslunni ríkari frá síðasta tímabili og það er betra að halda bara kjafti núna held ég. Við ætlum okkur að láta verkin tala inni á vellinum í sumar og við mætum í hvern einasta leik til þess að gera okkar besta og gefa andstæðingum okkar alvöru leik,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »